Launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sem fékk greitt sem samsvarar 9,7 milljónum króna á mánuði á síðasta ári. Laun Árna Odds hækkuðu um 17% í evrum, sem eru uppgjörsmynt Marel. Í ársreikningi Marel kemur fram að regluleg laun ásamt hlunnindum hafi hækkað úr 581 þúsund evrum í 634 þúsund evrur milli áranna 2017 og 2018.

Því samsvarar að regluleg laun Árna Odds hafi numið tæpum 7 milljónum króna á mánuði en kaupaukagreiðslur sem samsvarar nærri 2 milljónum króna á mánuði. Afkoma Marel hefur batnað umtalsvert á síðustu árum, auk þess að gengi bréfa félagsins hafa hækkað verulega í Kauphöll Ísland. Markaðsvirði félagsins hefur hækkað um 40% á þessu ári og nemur markaðsvirði félagsins nú ríflega þriðjungi af heildarvirði allra félaga í Kauphöll Íslands, eða um 340 milljörðum króna og hefur hækkað um nærri 140 milljarða króna á þessu ári, eða sem svarar samanlögðu markaðsvirði Icelandair Group, Eimskips, TM, VÍS og Sjóvá.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .