Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest, var með 250 þúsund evrur í laun og hlunnindi á síðasta ári. Það gera 39,8 milljónir króna, 3,3 milljónir á mánuði. Hann var með 239 þúsund evrur í laun ári fyrr, 38 milljónir króna á árinu öllu miðað við gengi dagsins í dag. Tekið er fram í uppgjörinu að laun Árna Odds námu 211 þúsund evrum og hlunnindi 39 þúsund evrum.

Faðir Árna Odds, Þórður Magnússon sem jafnframt er stjórnarformaður Eyris Invest, var á sama tíma með 103 þúsund evrur í laun og hlunnindi hjá félaginu í fyrra. Það gera 16,4 milljónir króna, tæpar 1,4 milljónir króna á mánuði. Þar af námu laun 81 þúsund evrum og hlunnindi 22 þúsund evrum. Hann var með 74 þúsund evrur í laun og hlunnindi árið 2011.

Fram kemur í uppgjöri Eyris Invest að laun og árangurstengdar greiðslur námu 755 þúsund evrum í fyrra. Þetta er tvö þúsund evrum meira en árið 2011. Hjá Eyri Invest voru átta starfsmenn í fullu starfi á síðasta ári. Meðallaun miðað við það hljóðuðu upp á 1,2 milljónir króna á mann.

Eyrir Invest, sem er helsti hluthafi Marel, tapaði 2,2 milljörðum króna á síðasta ári.