Hagnaður Árna Odds Þórðarsonar ehf. nam á síðasta ári rúmum 86 milljónum króna, samanborið við tap upp á 79,6 milljónir króna árið áður. Hagnaðurinn kemur að mestu til vegna gengismismunar sem nam tæpum 139 milljónum króna á síðasta ári, en árið áður nam tap vegna gengismunar um 62,4 milljónum króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem er, eins og nafnið gefur til kynna, í eigu Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Eyris Invest. Félagið var stofnað í ágúst 2007 undir nafninu AB 93 ehf., en nafni félagsins var strax breytt í Árni Oddur Þórðarson ehf. Tilgangur félagsins er kaup, sala og eignarhald verðbréfa, leiga og rekstur fasteigna, lánastarfsemi, önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur.

Eignir félagsins námu í árlok tæpum 610 milljónum króna, samanborið við 607 milljónir króna árið áður. Hins vegar var eigið fé félagsins neikvætt um 572,7 milljónir króna, samanborið við neikvætt eigið fé upp á 658,9 milljónir króna árið áður. Þá námu langtímaskuldir við langtímastofnanir rúmum 1,1 milljarði króna, samanborið við rúma 1,2 milljarða árið áður. Heildarskuldir félagsins námu tæpum 1,2 milljörðum króna.

Fram kemur í skýringum í ársreikningi að félagið á 2,4% hlut í Eyri Invest ehf. Bréfin eru veðsett til tryggingar á láni frá lánastofnun, jafnframt því sem eigandi félagsins hefur veitt frekari tryggingar fyrir láninu.

Árni Oddur Þórðarson
Árni Oddur Þórðarson
© BIG (VB MYND/BIG)

Árni Oddur Þórðarson.