Theo Hoen, forstjóri Marel, og Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður fyrirtækisins og framkvæmdastjóri Eyris Invest, hringdu kauphallarbjöllunni á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum við Times Squire í New York í Bandaríkjunum við hátíðlega athöfn um klukkan hálf tvö í dag.

Tilefnið var að í júní voru 20 ár eru liðin frá því hlutabréf Marel voru skráð í Kauphöllina. Þetta er í þriðja sinn sem forsvarsmenn íslensks fyrirtækis sem skráð er á markað hér hringja bjöllunni. Það hafa áður gert fulltrúa Icelandair Group og stoðtækjafyrirtækisins Össurar.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, var gestgjafi við athöfnina og bauð hann forstjóra Marel, stjórnarformann og öðrum fulltrúum fyrirtækisins og gestum þeirra velkomna, að því er segir í tilkynningu.

Í tilkynningunni kemur sömuleiðis fram að þeir Árni Oddur og Theo Hoen héldu stutta tölu. Árni Oddur sagðist vera stoltur yfir þeim árangri sem Marel hafi náð frá skráningu og sé það nú orðið alþjóðlegur leiðtogi með starfsemi um allan heim. Það hafi skipt sköpum í uppbyggingu Marel að hafa skýra stefnu og aðgang að fjármagni á hlutabréfamarkaði.

Hoen tók undir það og sagði fyrirtækið hafa lagt áherslu á skýra framtíðarsýn, nýsköpun og sókn á nýja markaði og hafi það skilað fyrirtækinu áleiðis.