Árni Oddur Þórðarson hlýtur viðskiptaverðlaun ársins hjá Viðskiptablaðinu.

Árni Oddur er forstjóri Eyris Invest og stjórnarformaður Marel. Hann stofnaði Eyri árið 2000 með föður sínum, Þórði Magnússyni, sem hefur verið lykilmaður í íslensku viðskiptalífi undanfarin 30 ár, m.a. sem fjármálastjóri Eimskips.

Þeir feðgar eiga nú 38% í félaginu sem skilaði góðri afkomu fyrstu tíu mánuði ársins, að meðtöldum hinum ,,svarta" október mánuði.

Eyrir er stærsti hluthafinn í Marel og annar stærsti hluthafinn í Össuri, en bæði félög standa sterkum fótum í dag eftir hraðan vöxt á síðustu árum. Sem stjórnarformaður Marel hefur Árni Oddur unnið náið með Herði Arnarsyni, forstjóra félagsins, að því að láta háleit markmið þess verða að veruleika.

Áður en Árni Oddur stofnaði Eyri starfaði hann hjá Búnaðarbankanum og tók hann þátt í að byggja upp fjárfestingabankastarfsemi hans. Árni Oddur er með MBA gráðu frá IMD í Sviss, sem er einn af leiðandi viðskiptaháskólum Evrópu.

Í ítarlegu viðtali við Áramótablað Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag, segir Árni Oddur frá ævintýralegri uppbyggingu Marels, áhugaverðum yfirtökum auk þess að tjá sig um Evrópusambandið, bankahrunið og horfur í efnahagsmálum.

Össur og Marel til fyrirmyndar á sínum sviðum

Í ávarpi Haraldar Johannessen, ritstjóra Viðskiptablaðsins við afhendingu verðlaunanna fyrir stundu kom fram að þau fyrirtæki sem Eyrir Invest hefur einbeitt sér að á síðustu árum hafa náð gríðarlega góðum árangri í uppbyggingu sinni og útrás.

Þá kom fram að á árunum 2004 – 2005 hafi Eyrir Invest fært sig úr stórtækum fjárfestingum í fjármálageiranum og einbeitt sér að framleiðslufyrirtækjunum Marel og Össur, sem hafi bæði skilað afar góðum rekstrarárangri þrátt fyrir erfiða tíð.

Haraldur sagði bæði fyrirtækin vera til mikillar fyrirmyndar á sínum sviðum og til mikils sóma fyrir þá sem að þeim koma. Þetta væru fyrirtæki sem allir Íslendingar gætu verið stoltir af.