Fjármögnun Marels [ MARL ] á yfirtöku Stork Food Systems er tryggð, að sögn Árna Odds Þórðarsonar stjórnarformanns félagsins, á afkomufundi í morgun.

Marel er að ráðast í hlutafjárútboð upp á 117 milljónir evra (um 14 milljarðar króna) sem er sölutryggt af Landsbankanum, næststærsta hluthafa Marels, með bakstuðningi frá kjölfestufjárfestinum Eyri Invest og danska félaginu Grundtvig Invest.

„Að öðru leyti erum við að fjármagna yfirtökuna með langtímalánum, sem er allgott miðað við núverandi aðstæður. Meðallíftími lánanna, sem við erum að bæta við eru sex ár en meðallíftími lánanna í samstæðunni eru fimm ár,” sagði Árni Oddur.

„Álag á LIBOR er öllu hærra en við hefðum haldið fyrir ári síðan. Um 310 punktar að meðaltali sem við ætlum að fjármagna þessa yfirtöku á,” sagði Árni Oddur.

Hann nefndi að kjörin væru vel ásættanleg og að hærra álag en þeir gerðu sér vonir um fyrir ári síðan, væri tilkomið vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum. En eins og flestum er kunnugt um ríður yfir lausafjárkrísa.

Lánin eru að fullu uppgreiðanleg hvenær sem er á lánstímabilinu, að sögn Árna Odds, og því er möguleika á að endurfjármagna þau.

Grundtvig Invest er í eigu fjölskyldunnar sem stofnaði Scanvægt, félag sem Marel tók yfir árið 2006. En fjölskyldan þáði sem hluta af greiðslunni fyrir Scanvægt, hlutafé í Marel. Nú mun hún nýta frekari hluta af fjármunum sínum til að taka þátt í frekari uppbyggingu á Marel.

Samkvæmt upplýsingum úr hluthafaskrá á Grundtvig 12,9% í Marel.

Í tilkynningu segir að fjöldi hluta sem seldir verða í hlutafjárútboðinu ræðst af gengi evru gagnvart íslenskri krónu og útboðsgengi. Tilkynnt verður um fjölda hluta sem boðnir verða til sölu og útboðsgengi í kjölfar stjórnarfundar í sem áætlað er að halda 30. maí.