Gengi hlutabréfa Marel hefur fallið um 3,15% í veltu upp á 204 milljónir króna í Kauphöllinni í dag. Fyrirtækið birti uppgjör eftir lokun markaðar í gær. Þar kom fram að hagnaður félagsins dróst saman um rúm 40% á milli ára. Hann var 20,6 milljóna evra eða sem svarar til 3,1 milljarðs króna, á síðasta ári. Árið 2012 nam hagnaðurinn hins vegar 35,6 milljónum evra eða 5,6 milljörðum íslenskra króna.

Í uppgjörstilkynningu í gær var haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, sem tók óvænt við forstjórastarfinu hjá Marel af Theo Hoen í fyrrahaust, að rekstrarhagnaður félagsins hafi ekki verið í samræmi við samkeppnisstöðu félagsins og getu þess. Áherslum hafi verið breytt í rekstri og einingar samþættar. Markmiðið sé að ná rekstrarhagnaði Marel yfir 100 milljónir evra árið 2017.

Rekstrarhagnaður Marel nam 42,9 milljónir evra í fyrra. Eigi markmiðið að nást þarf rekstrarhagnaðurinn að aukast um 133% á þremur árum.