Félagið Vogabakki hefur selt hlut sinn Morgundegi, útgáfufélagi Fréttatímans.  Vogabakki er í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar og seldu þeir hlut sinn til annarra hluthafa í Morgundegi. Eftir viðskiptin eru hluthafarnir þrír eða þeir Gunnar Smári Egilsson, Sigurður Gísli Pálmason og Valdimar Birgisson. Þetta kemur fram á vefsíðu Fréttatímans .

Gunnar Smári tekur við stjórnarformennsku af Árna og er því í dag útgefandi, ritstjóri og stjórnarformaður. Í Fréttatímanum kemur fram að ástæðan fyrir því að þeir Árni og Hallbjörn selji séu „persónulegar".

Rétt rúmt ár er síðan Gunnar Smári keypti allt hlutafé í blaðinu ásamt Árna, Hallbirni, Valdimari og Sigurði Gísla. Í frétt sem birtist í Fréttatímanum í lok nóvember 2015 kom fram að allir þessir hluthafar ættu „viðlíka stóran hlut".

Þetta eru ekki einu breytingarnar á Fréttatímanum því í dag greindi Vísir frá því að Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem ráðinn var vefstjóri Fréttatímans fyrir ellefu mánuðum, væri hættur störfum. Í samtali við Vísi nefnir hann enga sérstaka ástæðu heldur segist hafa viljað breyta til.