Viðskiptafélagarnir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson er stærstu hluthafarnir í Múrbúðinni eftir að fjárfestingafélag þeirra Vogabakki festi kaup á 40% eignarhlut í félaginu. Múrbúðin rekur þrjár byggarvöruverslanir í Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Fjallað er um kaupin í Markaði Fréttablaðsins í morgun og greint frá því að stærsti seljandi hafi verið fjárfestingarsjóður í stýringu hjá Gamma sem fór með 26% hlut í Múrbúðinni.

Árni og Hallbjörn voru á sínum tíma aðaleigendur Húsasmiðjunnar, sem þá var stærsta byggingavöruverslun landsins, en seldu meirihluta sinn í fyrirtækinu árið 2005. Mikið var fjallað um kaup Árna og Hallbjörns á Húsasmiðjunni árið 2001 og meðal annars gefin út bókin Fjandsamleg yfirtaka, eftir fyrrverandi forstjóra félagsins, Boga Þór Siguroddsson.. Sömuleiðis var sætti það tíðindum þegar félagarnir seldu Húsasmiðjuna árið 2005 til Baugs. Í Í viðauka rannsóknarskýrslu Alþingis segir:

„Í janúarlok 2005 keypti Baugur síðan Árna og Hallbjörn út úr fyrirtækinu. Við þetta tilefni sagði Árni Hauksson að þeir Hallbjörn hafi séð fyrirtækið sem langtímafjárfestingu:„Okkar fyrirætlanir voru til langs tíma, en okkur barst tilboð sem ekki var hægt að hafna.“ Baugur áfram seldi þau 55%, sem félagið keypti, til þriggja fjárfestingarfélaga sem á sama tíma voru einnig stærstu hluthafar Flugleiða; Saxhóls, fjárfestingarfélags Nóatúnsfjölskyldunnar; Prímusar, fjárfestingarfélags Hannesar Smárasonar og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars. Hver þessara aðila átti um 18,3 prósent, samtals 55%, á móti 45% Baugs. Ólíkt mörgum öðrum umbreyttum fyrirtækjum fór Húsasmiðjan ekki í stórfellda útrás á næstu árum. Félagið var þó mjög skuldsett og sigldi í þrot haustið 2008.“

Tekjur Múrbúðarinnar á síðasta ári voru 940 milljónir króna og drógust lítillega saman frá árinu á undan. Hagnaður Múrbúðarinnar nam um 58 milljónum króna og hélst nánast óbreyttur á milli ára. Eigið fé fyrirtækisins var 188 milljónir í árslok 2018 og arðsemi eigin fjár á síðasta ári var því rúmlega 30 prósent. Eiginfjárhlutfall félagsins var um 43 prósent.

„Fjárfestingarfélagið Vogabakki, sem er í jafnri eigu Árna og Hallbjörns, hagnaðist um 415 þúsund evrur í fyrra, jafnvirði 56 milljóna króna, borið saman við hagnað upp á rúmlega 2,2 milljónir evra á árinu 2017. Heildareignir félagsins námu 29 milljónum evra í árslok 2018 og eigið fé Vogabakka var um 24 milljónir evra. Eignir félagsins samanstanda einkum af eignarhlutum í öðrum félögum, sem eru bókfærðar á 18,7 milljónir evra, en þar munar langsamlega mest um skráð erlend hlutabréf að fjárhæð tæplega 14,8 milljónir evra,“ segir í umfjöllun Markaðarins.