Ný stjórn Haga var kjörin á aðalfundi félagsins 13. maí síðastliðinn. Þar tóku sæti í stjórn fulltrúar nýju fjárfestanna sem keyptu um 35% hlut í Högum af dótturfélagi Arion banka sem tilkynnt var um í febrúar síðastliðnum. Að auki hefur fjárfestahópurinn kauprétt á 10% af útgefnum hlutabréfum í viðbót.

Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson
Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson
Þeir sem leiða fjárfestahópinn, Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, settust báðir í stjórn. Árni Hauksson er formaður stjórnarinnar. Auk þeirra eiga Erna Gísladóttir, Guðbrandur Sigurðsson og Kristín Friðgeirsdóttir sæti í stjórn Haga.

Úr stjórninni ganga Pétur J. Eiríksson, Steinn Logi Björnsson og Svana Helen Björnsdóttir.

Félagið sem keypti hlut í Högum af dótturfélagi Arion heitir Búvellir. Stærstu eigendur Búvalla eru:

Hagamelur ehf. (félag í eigu Hallbjörns Karlssonar, Árna Haukssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar), Gildi lífeyrissjóður, SÍA I (fagfjárfestasjóður undir stjórn rekstrarfélagsins Stefnis, en eigendur SÍA I eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins) og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir ÍS-5. Aðrir eigendur Búvalla eru Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf., fjárfestingarsjóðurinn Stefnir Samval og séreignalífeyrissjóðirnir Vista og Lífeyrisauki, Miranda ehf. (sem er í eigu Berglindar Jónsdóttur) og Draupnir fjárfestingafélag (sem er í eigu Jóns Diðriks Jónssonar). Enginn hlutur er stærri en svo að svari til 8,5% eignarhlutar í Högum.

Undir Haga fellur Bónus, Hagkaup, Útilíf, Zara, Debenhams, Topshop, Evans, Dorothy Perkins, Oasis, Karen Millen, All Saints, Jane Norman, Day og Warehouse. Jafnframt eiga Hagar innkaupafyrirtækin Aðföng, Hýsingu, Banana og Ferskar kjötvörur.