Meðal þeirra sem skiluðu óskuldbindandi tilboðum í Tryggingamiðstöðina (TM) eru fjárfestarnir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þeir eru meðal annarra fjárfesta í að minnsta kosti einu tilboðanna sem bárust. Þeir Hallbjörn og Árni fóru fyrir hópi fjárfesta sem keypti um 34% hlut í Högum af dótturfélagi Arion banka í febrúar 2011, áður en félagið var skráð á markað. Tíu kauptilboð bárust í fyrsta áfanga söluferlis á TM. Frestur til þess að skila inn óskuldbindandi tilboðum rann út síðastliðinn föstudag, 4. maí.

Júlíus Þorfinnsson, forstjóri Stoða, segir að nú sé verið að fara yfir tilboðin með það fyrir augum að velja þau frambærilegustu til áframhaldandi þátttöku. Næsti áfangi eru skil á skuldbindandi tilboðum og á honum að ljúka 8. júní.