Tveir hæstaréttardómarar létu af embætti um mánaðamótin. Það eru þau Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Gunnlaugur Claessen lét af embætti í haust. Hæstaréttardómarar eru því níu talsins núna. Þeir voru einnig níu fyrir bankahrunið en með lögum frá Alþingi fékkst heimild til að fjölga þeim tímabundið í tólf.

Ein kona er núna skipaður hæstaréttardómari, en það er Gréta Baldursdóttir. Ingveldur Sæmundsdóttir er settur hæstaréttardómari til loka ársins í fjarveru Páls Hreinssonar.

Enn eru fjölmörg mál sem tengjast hruninu beint og óbeint, bæði opinber mál og einkamál, sem eiga að fara fyrir Hæstarétt.