Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, hafa samanlagt innleyst 235 milljóna króna hagnað með því að selja hlutabréf í Marel. Árni Oddur hefur á undanfarinni viku selt hlutabréf í félaginu fyrir 190 milljónir og Linda fyrir 261 milljón, samanlagt fyrir tæplega 452 milljónir króna. Alls hefur Árni selt 270 þúsund hluti á síðustu viku og Linda 370 þúsund hluti, ýmist á genginu 703-708,5 krónur fyrir hvern hlut. Frá þessu er greint í tilkynningum til Kauphallarinnar. Við lokun markaða á föstudag var gengi Marel í kauphöll Nasdaq á Íslandi 715 krónur.

Þann 27. október barst tilkynning til Kauphallarinnar um að Árni Oddur hefði keypt alls 278 þúsund hluti á meðalgenginu 2,349 evrur, jafnvirði 389 króna miðað við þáverandi gengi krónunnar. Árni keypti því fyrir alls 108 milljónir króna. Á sama tíma keypti Linda alls 527 þúsund hluti á meðalgenginu 1,825 evrur, jafnvirði 302 króna. Linda keypti því fyrir alls 159 milljónir. Um var að ræða innlausn á kaupréttarsamningum.

Þremur dögum síðar eða 30. október berst tilkynning til Kauphallarinnar að Árni Oddur og Linda hafi selt hlutabréf í Marel. Alls seldi Árni Oddur fyrir tæplega 141 milljón eða 200 þúsund hluti á genginu 703 krónur fyrir hvert hlutabréf. Einnig var tilkynnt um að Linda hefði selt fyrir rúmlega 105 milljónir, alls 150 þúsund hluti á sambærilegu gengi og Árni.

Þann 6. nóvember er enn á ný tilkynnt um að Árni og Linda hafi selt hlutabréf í Marel. Árni seldi þá 70 þúsund hluti fyrir 49,6 milljónir króna og Linda seldi 220 þúsund hluti fyrir 156 milljónir. Viðskiptin áttu sér stað á genginu 708,5 krónur.

Samanlagt hefur Árni Oddur því selt 270 þúsund hluti fyrir um 190 milljónir í liðinni viku. Þar sem um innlausn á kaupréttarsamning er að ræða er kaupgengi bréfanna töluvert undir markaðsverði. Árni greiddi 105 milljónir króna fyrir 270 þúsund hluti þann 27. október og hefur hann því innleyst um 85 milljóna hagnað.

Linda hefur samanlagt selt 370 þúsund hluti í liðinni viku fyrir um 261 milljón. Linda greiddi um 112 milljónir fyrir 370 þúsund hluti og hefur því innleyst um 150 milljóna króna hagnað. Samanlagt hafa Árni og Linda því innleyst 235 milljóna króna hagnað á viðskiptunum.

Þar sem Linda keypti alls um 527 þúsund hluti þann 27. október eru enn um 157 þúsund hlutir óseldir frá því að hún nýtti kaupréttarsamninginn sinn. Markaðsverð þeirra hluta er um 112 milljónir króna. Árni Oddur á enn eftir að innleysa um átta þúsund hluti, markaðsverð þeirra hluta er um 5,7 milljónir.

Eiga enn í Marel fyrir hartnær 300 milljónir króna

Eftir nýjustu viðskiptin, þann 6. nóvember, á Árni Oddur tæplega 73 þúsund hluti í Marel, virði 52 milljónir króna miðað við núverandi markaðsverð. Enn fremur á Árni 17,9% hlut í Eyri Invest hf., stærsta hluthafa Marel, sem á um fjórðungshlut í Marel. Árni á enn kauprétt að tæplega tveimur milljónum hluta í Marel.

Linda á nú 340 þúsund hluti í Marel, virði 243 milljónir króna. Jafnframt er hún með kauprétt að rúmlega 1,3 milljónum hluta. Samanlagt eiga því Árni Oddur og Linda 412 þúsund hluti í Marel sem eru virði um 295 milljónir króna, miðað við núverandi markaðsverð í kauphöll Nasdaq á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð