Ísland stefnir í vítahring gengislækkana, verðbólgu, vaxtahækkana og kauphækkana, að sögn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Í ræðu sem hann hélt á flokkstjórnarfundi flokksins í dag sagði hann almenning langt frá því að hafa endurheimt kaupmáttinn fyrir hrun, en útgerðin sé strax byrjuð að heimta gengisfellingu. „Við í Samfylkingunni ætlum ekki að halda kjafti og vera sæt: Til þess var barist við hrunið að það gerðist aldrei aftur,“ sagði hann.

Árni Páll sagði að til að nýta þau tækifæri sem til staðar væru þurfi ríkisstjórn sem opni útflutningi nýja markaði, búi þeim fyrirtækjum sem borga há laun góð almenn starfsskilyrði og tryggi jafnræði atvinnugreina með gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum.

„Það er löngu sannað að ríkisstjórnin sem nú situr gerir ekkert af þessu. Þetta er ekki frjálslynd ríkisstjórn. Hún mismunar atvinnugreinum og vinnur gegn atvinnufrelsi. Hún endurnýtir eldgamlar íslenskar sérlausnir, til að tryggja vildarvinum forgang fram yfir aðra. Hún er ráðlaus um afnám hafta. Hún hyglar þeim sem ríkastir eru og leggur auknar álögur á allt millitekju- og lágtekjufólk. Atvinnustefnan: Ríkisrekin áburðarverksmiðja til að blása ungu fólki í brjóst tiltrú á framtíðina.“

Í ræðunni lagði Árni fram tillögu um það hvernig fara ætti með aðildarumsóknina að ESB, sem fæli í sér að tillaga ríkisstjórnarinnar í óbreyttri mynd yrði lögð til hliðar. „Við leggjum grunn að alvöru greiningu á hagsmunum þjóðarinnar. Fyrst þurfum við að sjá skýrslu Alþjóðamálastofnunar, sem Alþýðusambandið, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa óskað eftir. Síðan getum við betur greint þá þætti sem þá eru enn óljósir. Þetta getur tekið einhverja mánuði eða misseri. Síðan þarf að taka ákvörðun. Fulltrúalýðræðið hefur marga kosti, en það eru líka spurningar sem virðast því ofviða að óbreyttu. Og þá getur verið gott að leita til þjóðarinnar. Og það er ekkert sem mælir gegn því ef mál eru vel kynnt, kostir greindir til fulls og skýrra spurninga spurt.“