Díana Wallis, einn varaforseta Evrópuþingsins, sagði í einkasamtali við Árna Pál Árnason, formann íslensku sendinefndarinnar í Norðurlandaráði, í Helsinki um helgina að hún styddi ekki aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-málsins.

Árni Páll flutti erindi á ráðstefnu finnska þingsins um helgina og koma þar meðal annars inn á framgöngu Breta gagnvart Landsbankanum.

„Í ljósi þess að þarna voru fulltrúar Evrópuþingsins gerði ég að umtalsefni framgöngu Breta í okkar garð," segir Árni Páll í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að ekki hafi farið fram almennar umræður að loknu erindinu að öðru leyti en því að þeir sem tekið hafi til máls í kjölfarið hafi margir hverjir talið mikilvægt að styðja við Íslendinga í þeim aðstæðum sem þeir nú glímdu við.