Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi félags-, efnahags- og viðskiptaráðherra, ætlar taka ákvörðun um það hvort hann ætli að bjóða sig fram sem formaður flokksins eftir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur sagt hvað hún ætli að gera í haust.

Árni Páll segir í viðtali í helgarblaði DV jafnframt ekki vita hvenær eða hvernig eigi að velja formann Samfylkingarinnar.

„Mér finnst eðlilegt að heyra hvað hún hefur að segja,“ segir Árni Páll.

Í viðtalinu fer Árni Páll yfir ráðherratíð sína og segir hrókeringar í ríkisstjórninni um síðustu áramót hafa komið sér á óvart. Þótt um skeið hafi legið í loftinu að hann yrði settur var honum talið utan við umræðurnar og fékk hann ekki að heyra af niðurstöðunni fyrr en á þingflokksfundi daginn fyrir Gamlársdag í fyrra. Árni Páll segir í samtali við blaðið hafa blendnar tilfinningar gagnvart því þegar hann var settur út af og öðrum hrókeringum í ráðherraliðinu:

„Á þessu eru tvær hliðar. Önnur er sú hvernig það bar að og sá ráðherrakapall sem þar var lagður og ekki sér fyrir endann á. Ég held að engum sé greiði gerður með losarabrag á stjórn efnahags- og ríkisfjármála á þessum tímum og fráleitt að fjármálaráðherra sé skipaður til nokkurra mánaða í senn. Ég held að þjóðin og flokkurinn eigi betra skilið.“