Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hélt ræðu á flokksstjórnarfundi flokksins í dag þar sem hann fór yfir víðan völl. Hann byrjaði á að óska Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar til hamingju með 10 ára afmæli og bað svo viðstadda um að standa upp og hugsa hlýlega til Guðbjartar Hannessonar, sem nú glímir við erfið veikindi.

„Guðbjartur talaði um flóttamenn í viðtali í Kastljósi og sagði svo vel að við stöndum ekki frammi fyrir vali um annað hvort: Móttöku við flóttamenn eða þjónustu við aldraða og öryrkja. Það er ekki þannig að ef við gerum vel við einn hóp í vanda þurfum við að koma illa fram við annan. Hverjum datt það annars í hug?“ sagði Árni Páll meðal annars í ræðu sinni.

Hann hélt áfram að ræða málefni flóttamanna og sagði mikilvægt að Ísland legði sitt af mörkum.

„Vandinn reynir á Evrópu alla. Í heimsókn Samfylkingarinnar til flokkssystkina okkar í Evrópuþinginu í vor gerði ég flóttamannavandann að umtalsefni og hvatti bræður okkar og systur til aðgerða. Við jafnaðarmenn gætum ekki þolað óbreytt ástand. Núverandi stefna tryggir ekki forgang þeirra sem eru í mestri neyð, lokar í reynd dyrum gagnvart konum, börnum, öldruðum og sjúkum og auðveldar mansal og glæpastarfsemi gagnvart fólki í brárri neyð,“ sagði Árni Páll. Þess vegna væri brýn nauðsyn á sameiginlegu alþjóðlegu átaki.

Hann sagði að ríkisstjórn Íslands gæti ekki reynt að skerast undan ábyrgð með því að spila á „þjóðernisnótur“ og neita því að láta ESB segja sér fyrir verkum.

„Fínt. Tökum þá við fleiri flóttamönnum en ESB leggur til að við gerum. Er ekki kominn tími til að borga reikninginn fyrir þátttökuna á lista hinna viljugu þjóða? Innrásin í Írak – studd heilshugar af ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka – markaði upphaf hörmungarsögu átaka og ofbeldis sem fólk er nú að flýja. Nú eru hundruðir þúsunda að greiða með lífi sínu fyrir það feigðarflan,“ sagði Árni Páll harðorður.

Ræðu hans má lesa í heild sinni með því að smella hér.