Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, segir svörin ekki nógu skýr sem fengust á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um 50 milljarða króna frískuldamark bankaskattsins í morgun.

Hann vildi fá að vita hvernig talan, þ.e. 50 milljarðar hefði verið fundin, og óskaði eftir fundi um málið í morgun. Í ósk um fund viðskipta- og efnahagsnefndar um málið segir að frískuldamarkið virðist sérsniðið að hagsmunum einnar fjármálastofnunar, þ.e. MP banka.

Fréttastofa 365 miðla sagði í hádegisfréttum í dag svör Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, nokkuð óljós. Hann hafi sagt að talan hafi komið upp í samskiptum við nefndarmeirihlutann og starfsmenn fjármálaráðuneytisins.

Hann gat þó ekki staðfest að talan hafi komið frá sérfræðingum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur vísað því á bug að talan sé komin úr ráðuneytinu. Þvert á móti hafi ráðuneytið lagt fram útreikninga.

Árni Páll vill annan fund um málið.