Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir harðlega viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við ummælum fulltrúa Seðlabankans á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær. Seðlabankinn varaði við hugmyndum um að skuldaniðurfærslur yrðu á kostnað ríkissjóðs. Sigmundur sagði í viðtali við Stöð 2 í gær að Seðlabankinn væri í pólitík.

Árni Páll segir á vefsíðu sinni að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi verið að gagnrýna í raun Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins fyrir ummæli sín á þinginu.

„Síðdegis í gær spurði nefnilega Helgi Hjörvar formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu hans, í ljósi yfirlýsinga Seðlabankans. Þar tók formaður Sjálfstæðisflokksins undir með Seðlabankanum um að hann vildi forðast allt sem yki skuldir ríkisins og veikti lánshæfismat ríkisins. Það er hrósverð afstaða.

Reiðilestur Sigmundar Davíðs var því ætlaður öðrum en Seðlabankanum. Í gamla daga helltu stjórnarherrar Sovétríkjanna sér yfir Albaníu, þegar þeir þorðu ekki að skamma Kínverja. Sigmundur fer nú sömu krókaleið að því að skamma fjármálaráðherrann fyrir að vilja ekki láta ríkissjóð borga skuldaleiðréttingarnar – þvert á það sem hann sjálfur lofaði þjóðinni,“ segir Árni Páll.