Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi velferðarráðherra, greiddi sjálfur rétt rúmar 2,5 milljónir króna í formannsslag Samfylkingar sem lauk í byrjun febrúar sl. Baráttan kostaði Guðbjart rétt rúmar þrjá milljónir króna.

Árni Páll Árnason , sem hafði Guðbjart undir, lagði hins vegar sjálfur aðeins rétt tæpar 40 þúsund krónur undir í eigin slag. Formannsslagurinn kostaði Árna Pál 2,9 milljónir króna. Á móti eigin framlagi fékk Árni Páll 1,8 milljónir króna í framlög frá einstaklingum og lögaðilum. Guðbjartur fékk ekkert slíkt.

Þeir helstu sem studdu við Árna Pál í formannsslagnum voru Blómasmiðjan, sem lögðu honum til 320 þúsund krónur, og Saffron Holding, sem studdu hann um 300 þúsund krónur. Það gerði sömuleiðis félagið Eignarhaldsfélag Hörpu. Þá lagði Bláa lónið 200 þúsund krónur í formannsbaráttu Árna Páls. Það var jafn mikið og félagið Staðarhóll, sem tengist athafnamanninum Róberti Guðfinnssyni, lagði honum til. Þá studdi Toyota á Íslandi við formannsslag Árna Páls ásamt Straumi fjárfestingabank og Veröld bókaútgáfu.

Athygli vekur að Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna um það leyti sem formannsslagurinn stóð yfir, tengist nokkrum þeirra félaga sem styrktu Árna Pál í formannsslagnum. Hann er stýrir Eignarhaldsfélaginu Hörpu og er varamaður í stjórn Saffron Holding. Þá er Helgi jafnframt  stjórnarformaður Bláa lónsins.