*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 23. nóvember 2011 11:42

Árni Páll: Íslenska krónan notuð út áratuginn

Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að íslenska krónan verði í viðjum hafta. SA segir mikilvægt að stuðla að stöðugleika.

Ritstjórn
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir krónuna verða notaða hér eitthvað áfram nema annað verði ákveðið.
Axel Jón Fjeldsted

Íslenska krónan verður líklega notuð hér á landi í það minnsta út þennan áratug. Eftir það verður annar gjaldmiðill tekinn upp eða aðrar leiðir farnar í gjaldeyrismálum.

Þetta er á meðal þess sem fram kom á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Þar voru nokkur mál á dagskrá, meðal annars efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var nýverið. 

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að sé það raunin þá verði að sníða krónunni þann stakk að hún geti stuðlað hér að stöðugleika.

Í efnahagsáætluninni kemur fram að íslenska krónan sem sjálfsætður gjaldmiðill verði í viðjum hafta með einum eða öðrum hætti framvegis.