„Ef land er til sölu, þá er það til sölu,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra og bendir á að mikilvægt sé að ríkisstjórnin sendi skýr skilaboð um erlenda fjárfestingu.

Hann segir að af þeirri ástæðu sé nú unnið að undirbúningi skýrrar stefnu um erlenda fjárfestingu og lagabreytingum í kjölfar hennar. „Það er mikilvægt að regluverkið og umgjörðin sé skýr og ótvíræð og að bæði innlendir sem erlendir fjárfestar viti að þeir standi jafnir gagnvart lögum,“ segir hann.

Árni Páll kynnti í gær nýja efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Í henni kemur meðal annars fram að bein erlend fjárfesting er mikilvæg til að örva efnahagslífið við núverandi aðstæður. Á vorþingi verður lögð fram þingsályktunartillögu um erlenda fjárfestingu og hafist handa við endurskoðun laga um erlendar fjárfestingar og skattaumhverfi erlendra fjárfesta.

Ríkið er ekki að selja neitt

Samráðherrar Árna Páls í flokki Vinstri grænna hafa sett sig upp á móti nokkrum umsvifamiklum fjárfestingum erlendra aðila hér upp á síðkastið. Þær helstu eru kaup Magma Energy í HS Orku og fyrirhuguð kaup kínverska fjárfestisins Huang Nubo á jörð Grímsstaða á Fjöllum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lýst sig mótfallinn kaupum Nubos. Árni Páll hefur af þeim sökum sent honum minnisblað og óskað þess að Ögmundur veiti heimild til jarðakaupanna. Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í gær það ekki hringja neitt sérstökum hrifningarbjöllum hjá sér að utanaðkomandi aðilar og útlendingar færu að kaupa hér stór lönd.

Árni Páll segir að í tilviki Grímsstaða sé ríkið ekki að selja neitt. „Yfirlýsingar okkar allra um það hversu mikið land við viljum sjá selt hafa enga efnislega þýðingu. Það er ekki á okkar færi að ákveða það hversu mikið land einkaaðilar vilja selja," segir hann.