Árni Páll Árnason, þingmaður og fv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sigraði Katrínu Júlísdóttur, fjármálaráðherra, í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi sem fram fór í dag.

Árni Páll hlaut 1.041 atkvæði í 1. sæti listans. Katrín hlaut 1.364 atkvæði í 1.-2. sæti en bæði höfðu þau sóst eftir 1. sæti.

Á vef Samfylkingarinnar kemur fram að á kjörskrá voru 5.693 flokksfélagar og stuðningsmenn Samfylkingarinnar. 2.129 greiddu atkvæði sem er 37% kjörsókn. 22 atkvæði voru ógild, 9 atkvæði voru auð. 2098 atkvæði voru því gild.

Birting niðurstaðna tafðist vegna þess að kjörstjórn þurfti að úrskurða um atkvæði greidd á pappír á kjörstöðum í dag. Netkosning gekk greiðlega.

Niðurstaða flokksvals

  1. Árni Páll Árnason 1041 atkvæði í 1. sæti
  2. Katrín Júlíusdóttir  1364 atkvæði í 1.-2. sæti
  3. Magnús Orri Schram 1250 atkvæði í 1.-3.sæti
  4. Margrét Gauja Magnúsdóttir 889 atkvæði í 1.-5. sæti
  5. Lúðvík Geirsson 1105 atkvæði  í 1.-4.sæti

Paralistaaðferð var beitt til að tryggja jafnt hlutfall kynja samkvæmt reglum flokksvalsins. Margrét Gauja var færð upp um eitt sæti og Lúðvík niður um eitt sæti.  Kosning er bindandi í 5 efstu sætin.

Miðað við þessar tölur má gera ráð fyrir því að Lúðvík Geirsson falli af þingi í vor. Samfylkingin hefur nú fjóra þingmenn í kjördæminu en Lúðvík (sem lenti einnig í 5. sæti fyrir kosningarnar 2009) kom inn sem varaþingmaður þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði af sér þingmennsku á kjörtímabilinu. Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Capacent mælist Samfylkingin með þrjá þingmenn í kjördæminu en síðustu mánuði á undan hefur flokkurinn verið að mælast með fjóra þingmenn. Það þarf því töluverð fylgisaukning að eiga sér stað ætli Samfylkingin sér að ná fimm þingmönnum í alþingiskosningunum næsta vor.