Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson ræddu um framboð sín og svöruðu fyrirspurnum í Stúdentakjallaranum í dag. Það var mikið líf í Stúdentakjallaranum sem opnaði í lok síðustu viku og mikið um fyrirspurnir.

Frambjóðendurnir voru sammála um að ákvæði um þjóðkirkjuna ætti að vera í stjórnarskrá og að ekki kæmi til greina að gera málamiðlun um að ljúka aðildarviðræðum að ESB.

Það var einnig slegið á létta strengi í salnum og frambjóðendurnir beðnir um að segja hvaða dýri og hvaða Hollywood-leikara þeir væru líkastir. Árni Páll sagðist vera eins og kötturinn sem færi sínar eigin leiðir. Guðbjartur valdi hestinn sem væri traustur og gæti tekið vel á því í íslensku umhverfi. Þeir neituðu báðir að svara hvaða Hollywood-leikara þeir væru líkastir.