„Ummæli Jean-Claude Juncker sýna að það er ekkert gefið að Ísland eigi hvenær sem er með skjótum fyrirvara kost á því að verða aðili að Evrópusambandinu. Við nutum velvilja 2009 og komumst hratt áfram í aðildarumsóknarferlinu. Nú þegar ríkisstjórn Íslands vill ekki nýta lagið og sækja fram fyrir íslenska hagsmuni, blasir við sú hætta að við færumst sífellt aftar í röðina,“ að mati Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra.

Ofangreint ritar hann á Facebook-síðu sína í framhaldi af því að Jean Claude Juncker , nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að hlé verði gert á stækkun ESB næstu fimm árin. Talsmaður Juncker sagði eftir ræðuna að Juncker eigi við Albaníu, Ísland, Montenegro, Serbíu, Tyrkland og Makedóníu.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fór utan í fyrrasumar til fundar við Stefan Fühle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins (ESB), og gerði þar grein fyrir því að íslensk stjórnvald hafi ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum við sambandið. Allri vinnu í utanríkisráðuneytinu vegna viðræðnanna hefur verið hætt. Þá kom fram í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 í febrúar að tæpur helmingur landsmanna eða 48,2% er andvígur því að gerast aðili að Evrópusambandinu á sama tíma og um 26,2% landsmanna styðja það.

Vill halda áfram með aðildarferlið

Árni Páll bendir á að Ísland er enn umsóknarríki og hafi ESB marglýst sig reiðubúið til að ljúka aðildarferlinu sé vilji fyrir því hér á landi að halda áfram með ferlið.

Hann skrifar:

„Nú blasir það við að halda ferlinu áfram, ljúka við samning og leggja hann fyrir þjóðina sem fyrst, eins og mikill meirihluti þjóðarinnar vill. Ef þessi ríkisstjórn treystir sér ekki til að virða þjóðarvilja í málinu er vandalaust að finna aðra. Framganga ríkisstjórnarinnar í málinu einkennist af endurteknum afglöpum. Hún hefur lofað þjóðinni að þjóðin fengi að ákveða um framhald aðildarviðræðna, en svikið það jafnharðan. Þau svik geta nú orðið þjóðinni dýr.“