Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að eftir skoðun í ráðuneytinu á birtingu reglna um gjaldeyrishöft verði ekki betur séð en að rétt hafi verið staðið að málum. Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um hvort rétt hafi verið staðið að birtingu reglna um gjaldeyrismál á Alþingi í dag.

Árni Páll svaraði því til að þetta hefði verið kannað og taldi svo upp dagsetningar þar sem breytingar á reglunum hefðu verið birtar. Síðasta ákvörðun, um að halda reglunum óbreyttum, hefði verið borin undir hann og staðfest. Það væri hans eina aðkoma að þessu máli. Sigurður Kári sagði þá að það væri Seðlabankinn sem bæri ábyrgð á birtingu reglnanna samkvæmt því sem ráðherrann sagði.

Árni Páll sagði að ef eitthvað væri athugavert við birtingu reglnanna þá gætu menn látið reyna á það fyrir dómstólum. Sigurður Kári sagðist vona að ráðuneytið væri á þurru landi í þessu máli. Hefði ekki verið rétt staðið að birtingu reglnanna yrði þeim ekki beitt gegn borgurunum á þeim tíma sem þær áttu að gilda.

Segir ekki rétt að málum staðið

Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, hefur skrifað grein um gjaldeyrisreglur Seðlabankans í nýjasta tölublað Lögmannablaðsins sem kemur út í desember næstkomandi. Reimar telur samkvæmt frétt Stöðvar 2 að gjaldeyrisreglurnar hafi ekki verið réttilega birtar þangað til í október síðastliðnum og þar með hafi þær verið óskuldbindandi fyrir þann tíma, þar sem samþykki ráðherra sem var skilyrði fyrir gildistöku reglnanna var ekki réttilega birt fyrr en þá að hans mati.