Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að það væri skref til hins verra að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið eða færa það undir fjármálaráðuneytið.

Á Eyjan.is birtist í gær frétt þess efnis að til stæði fækka ráðherrum um tvo um leið og tilkynnt yrði um brotthvarf Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr ríkisstjórn. Þá er fullyrt að Árni Páll verði einnig látinn víkja úr ríkisstjórninni og að Steingrímur J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna tæki yfir hans ráðuneyti.

Ekki kemur nákvæmlega fram hvort efnahags- og viðskiptaráðuneytið verði lagt niður, en í það minnsta yrði Steingrímur J. ráðherra í báðum ráðuneytum samkvæmt heimildum Eyjunnar.

„Stjórnarsáttmálinn milli flokkanna er mjög skýr um þetta,“ segir Árni Páll í samtali við Viðskiptablaðið og vísar þar til stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Þar segir m.a.: „Til að tryggja markvissa framkvæmd efnahagsaðgerða stjórnvalda og endurnýja traust á fjármálakerfi landsins mun ríkisstjórnin ráðast í skipulagsbreytingar í stjórnkerfinu, m.a. með stofnun sérstaks efnhags- og viðskiptaráðuneytis.“

„Bæði Samfylkingin og Vinstri grænir voru sammála um að hér þyrfti að byggja upp öflugt efnahags- og viðskiptaráðuneyti og ég efast um að menn vilji víkja af þeirri leið og leggja ráðuneytið niður eftir aðeins tvö ár,“ segir Árni Páll.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Steingrími J. lengi verið í nöp við Árna Pál og viljað hann út úr ríkisstjórn. Kalt hefur verið á milli þeirra allt frá því að Árni Páll var félagsmálaráðherra en Árni Páll hefur lagst hart gegn skattastefnu Vinstri grænna frá því að ríkisstjórnin tók við völdum.

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sé tilbúin til að fórna ráðherra úr röðum Samfylkingarinnar gegn því að losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni.