Árni Páll Árnason, fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að ólíkt því sem haldið hefur verið fram sé enn svigrúm fyrir frekari niðurskurð af hálfu hins opinbera. Auk þess eigi alveg eftir að taka umræðu um það hvaða starfsemi á vegum ríkisins megi mögulega leggja niður og hvort nauðsynlegt sé fyrir ríkið að sinna ákveðnum verkefnum.

Í Viðskiptablaðinu má finna ítarlegt viðtal við Árna Pál þar sem hann fer m.a. yfir efnahagsmálin og nauðsynlegustu aðgerðir, stöðu bankanna, þörfina á að skilgreina hlutverk ríkisins og pólitíska landslagið. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og verður því birtur hér í heild sinni.

Árni Páll minnir á að núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að selja eignir og áætlar að fá fyrir þær um 10 milljarða króna á þessu ári. Þá sé bara ósvarað hvaða eignir það eru sem eigi að selja.

„Lykilatriðið í ríkisfjármálum er að menn hætti að hugsa sem svo að magn sé hið sama og gæði. Það vantar mun ríkari eftirfylgni þess hvað samfélagið fær fyrir útgjöldin,“ segir Árni Páll.

„Við lifum þá tíma að öll ríki vesturlanda munu verða að endurhugsa opinbera þjónustu og útgjöld í heild sinni vegna skuldastöðu ríkissjóðanna hvarvetna. Varðandi sölu eigna þá tel ég að menn ættu að horfa á Landsbankann, Landsvirkjun og Isavia. Steingrímur J. hefur nefnt Landsnet. Allt eru þetta hlutir sem við þurfum að ræða.“

Nánar er rætt við Árna Pál Árnason í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.