Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segir í Helgarútgáfunni á Rás 2 í dag að hann sé tilbúinn til að leggja sín störf í dóm flokksmanna, ef boðað verður til landsfundar flokksins fyrr en upphaflega stóð til. Árni Páll Árnason sigraði eins og frægt er orðið með einu atkvæði í formannslag gegn Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni flokksins, á landsfundi í mars síðastliðnum.

„Ég er algjörlega tilbúinn til þess að leggja mín störf í dóm flokksmanna. Þetta snýst ekki um annað en það að á meðan ég tel mig hafa hugmyndir og sýn um það hvert eigi að fara með flokkinn, sem flokksmenn deila, þá sit ég sem formaður og ef flokksmenn hætta að styðja mína sýn og vilja einhverja aðra, þá væntanlega verð ég ekki lengur formaður. Það er nú eðli lýðræðisins," segir Árni Páll í samtali við Hallgrím Thorsteinsson.

Hann gerir einnig að umtalsefni fylgistap Samfylkingar sem má rekja til vinsælda hjá Pírötum. „Í fyrrahaust vorum við komin upp í í kringum 20% fylgi, síðan verða þessar miklu breytingar með gríðarlegri fylgissveiflu til Pírata," segir Árni Páll.