Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, varð fyrir miklum vonbrigðum með kosningaúrslitin um síðustu helgi. Hann telur margt hafa verið andsnúið flokknum í kosningabaráttunni auk þess sem gagnrýna megi einstaka þætti í útfærslu kosningabaráttunnar. Það sem skar úr um var að Samfylkingin talaði fyrir samningaleiðinni í Icesave.

Samfylkingin tapaði miklu fylgi í Alþingiskosningunum um síðustu helgi, fékk 12,9% atkvæða og missti ellefu þingmenn. Níu náðu inn á þing.

Vonbrigði formannsins

Árni Páll fjallar um úrslit kosninganna í bréf sem hann sendi flokksfélögum sínum í dag. Hann segir orðrétt:

„Kosningaúrslitin um síðustu helgi urðu okkur öllum mikil vonbrigði. Það er sárt að sjá góða og öfluga baráttumenn falla af þingi og kannski enn sárara að nýtt fólk sem þangað átti erindi komist ekki inn til að láta gott af sér leiða.

Það eru án efa margar ástæður fyrir fylgistapinu. Mikilvægast er samt að muna að við komumst saman á þennan stað og við verðum saman að komast burt af honum.

Við höfum séð ýmis teikn um að rætur okkar sem fjöldahreyfingar hafi verið að trosna á kjörtímabilinu. Þess sá þegar stað í sumum sveitarfélögum í kosningunum 2010 og nú blasir hvarvetna sama myndin við. Þessi grunur staðfestist í fylgisgreiningum. Við fengum vandaða greiningu á fylgismöguleikum okkar, bæði fyrir þessar kosningar og árið 2009. Árið 2009 var hámarksfylgi okkar greint upp á 32% - þ.e. að 32% þjóðarinnar væru yfir höfuð móttækileg fyrir boðskap okkar. Við náðum þá tæpum 30%. Nú fyrir þessar kosningar skilaði sama greining okkur 17% - þ.e. að einungis 17% þjóðarinnar væri yfir höfuð móttækileg fyrir skilaboðum okkar og tilbúin til að hlusta á okkur.

Af hverju hefur þetta gerst? Hvert og eitt okkar hefur áreiðanlega ólíka sögu að segja í því efni. Við vitum auðvitað að margt var andsnúið okkur í þessari kosningabaráttu og ýmis einstök verk okkar í ríkisstjórn voru okkur erfið í kosningabaráttunni. Það má líka áreiðanlega gagnrýna einstaka þætti í útfærslu kosningabaráttunnar. Ég held samt að tvennt skiptu mestu um þessa þróun á kjörtímabilinu: Skuldir og Icesave.

Við töluðum fyrir samningaleið í Icesave, rétt eins og allir flokkar gerðu á einhverjum tíma. En við gengum kannski of langt í að tala fyrir samningum sem hinni einu réttu leið og töluðum ekki af virðingu um þá réttmætu tilfinningu þjóðarinnar að með kröfunum í Icesave væri ósanngjörnum kröfum beint að þjóðinni. Okkur var svo í mun að afgreiða þetta vandamál og koma því frá að ásýnd okkar varð eins og flokks sem vildi semja, hvað sem það kostaði. Eftir dóminn í janúar varð þetta okkur enn erfiðara.

Svipað sjónarmið á að sínu leyti við um skuldavandann. Við töluðum fyrir skynsamlegum lausnum í skuldamálum allt frá því í kosningabaráttunni 2009. Við höfnuðum almennum skuldaniðurfærslum á kostnað almennings og bjuggum út margar nýjar leiðir fyrir fólk í greiðsluvanda og ofveðsett fólk. En við gengum lengra og sögðum fólki að nú væri þetta allt orðið gott og skuldabyrðin sú sama og árið 2006. Á sama tíma upplifði venjulegt fólk samt á sínu skinni vaxandi erfiðleika við að standa undir hóflegum skuldum og fannst við vera úr takti við afkomu venjulegs fólks.

Þar við bættist að fólk skynjaði margháttaða ósanngirni í þeim miklu eignatilfærslum sem voru óhjákvæmilegar afleiðingar hrunsins. Verst féll almennu launafólki að svo virtist sem stóreignafólk og þeir sem mesta áhættu tóku færu best út úr skuldauppgjöri, á sama tíma og að þeir sem greiddu eins og þeir gátu og öxluðu allar sínar byrðar möglunarlaust væru verst settir. Upplifun almenns launafólks var ekki ósvipuð þeirri djúpstæðu tilfinningu óréttlætis sem tjáð er í upphafi þriðja erindis Internasjónalsins, sem við sungum saman á 1. maí:

„Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.“

Eins og ég nefndi í ræðu minni í Rúgbrauðsgerðinni á kosninganótt þá verða stórir flokkar ekki litlir við það eitt að tapa fylgi. Þeir verða litlir við að hætta að hugsa stórt. Verkefni okkar nú er að glæða rætur flokksins lífi á ný.

Til að svo megi verða þurfum við að taka á saman, trú því verklagi sem við höfum valið okkar innan Samfylkingarinnar. Eðli okkar hefur alltaf verið að taka á nýjum verkefnum með sameinandi hætti. Þegar margir innan flokksins vildu aðildarumsókn og margir aðrir efuðust, sameinuðumst við um upplýsta umræðu og allsherjaratkvæðagreiðslu. Þegar straumar umhverfisverndarsjónarmiða léku um flokk og samfélag eftir að ákvörðun hafði verið tekin um uppbyggingu á Kárahnjúkum lögðum við í mikla og vandaða vinnu þar sem atvinnustefna og umhverfis- og náttúruverndarstefna voru fléttaðar saman á alveg nýjan hátt í Fagra Íslandi, sem enn er lykilplagg í umhverfismálum á Íslandi og aðrir flokkar keppast við að reyna að endurskapa.

Því vil ég óska eftir því við ykkur öll að við hugsum hvernig við getum lagt hreyfingu okkar gott til á þessum tímamótum. Það væri okkur í stjórn flokksins ávinningur af því að fá tilskrif frá flokksmönnum  - hvort heldur er sem svar við þessu bréfi eða með sérstöku skeyti til mín á [email protected] . Þrennt dettur mér strax í hug sem gott væri að óska svara við:

  1. Telur þú þörf á að Samfylkingin breyti stefnuáherslum í einstökum málum, leggi meiri rækt við ný stefnumál eða endurskoði afstöðu til eldri stefnumála?
  2. Viltu sjá ný vinnubrögð í flokksstarfi, í tengslum forystu við flokksfólk og í tengslum flokksskrifstofu við flokksfélög og þá hver?
  3. Hvernig lítur þú á verkefnið núna, með hliðsjón af sögu flokksins og arfleifðar okkar? Hvernig telur þú að okkur hafi í upphafi tekist að verða stór og samhentur flokkur og hvernig gerum við Samfylkinguna aftur stóra og samhenta?

Markmið okkar allra hlýtur að vera að Samfylkingin verði aftur flokkur sem njóti fjöldafylgis og tiltrúar fjöldans. Leiðin til þess er að flokkurinn sé alltaf brjóstvörn almannahagsmuna og taki aldrei svari sérhagsmuna. Hún verður líka að rúma ólíka hópa innan sinna vébanda og sýna það umburðarlyndi og frjálslyndi í vinnubrögðum að allir eigi þar rúm og allir meti ávinninginn af samtalinu og samvinnunni það mikinn, að hann réttlæti að enginn fái öllu sínu fram.

Enginn einn ber ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum núna í og enginn einn mun koma okkur úr henni. Við sköpuðum sameiginlega þessar aðstæður með verkum okkar og við verðum að koma okkur úr þeim með sameiginlegu átaki.

Bestu kveðjur,

Árni Páll“