Þetta var það lengsta sem við komumst,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, þegar hann er spurður hvers vegna Evrópukaflinn í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar hafi ekki verið meira afgerandi en raun ber vitni.

Samfylkingarmenn hafa síðustu mánuði lagt mikla áherslu á að aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri lykilatriði í uppbyggingarstarfinu framundan.

Í Evrópukafla verkefnaskrár nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og VG er hins vegar talað um að setja eigi málið í nefnd sem skila eigi skýrslu 15. apríl nk. Þá segir þar að stjórnarflokkarnir séu sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Árni Páll bendir á að í verkefnaskránni sé einnig kveðið á um að breytingar verði gerðar á þremur atriðum í stjórnarskránni. Það þýðir meðal annars, segir hann, að leggja eigi fram stjórnskipunarfrumvarp um að í stjórnarskránni verði almennt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem og að í henni verði ákvæði um að heimilt verði að breyta stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að rjúfa þing og boða til kosninga.

„Með þessu móti erum við að tryggja að ný ríkisstjórn geti sótt um aðild strax eftir þingkosningar og að aðildarferli [að ESB] geti orðið skemmra sem því nemur,“ segir hann.

„Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að breyta afstöðu sinni til Evrópusambandsins og því er ekki að neita að frá þeim hafa komið alls kyns furðulegar hugmyndir um hvernig ætti að standa að stjórnarskrárbreytingu sem heimilar aðild að Evrópusambandinu. Nægir að benda á ýmsar hugmyndir Björns Bjarnasonar í því efni," segir Árni Páll.

Verkefnaskrá Samfylkingar og VG má í heild sinni finna hér.