Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, lét þau orð falla í viðtali hér í Viðskiptablaðinu fyrir áramót að Samfylkingin þyrfti að endurnýja forystu sína fyrir næstu kosningar. Enn hefur enginn innan Samfylkingarinnar mótmælt þessum orðum hans opinberlega.

Í viðtali við Árna Pál Árnason, fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, spyr blaðamaður Árna Pál hvort Össur hafi með þessum orðum verið að segja það sem allir voru að hugsa en enginn þorði að segja?

„Einhvern tíma verður skipt um formann í Samfylkingunni, það er enginn eilífur í þessu. En hver það verður og hvenær, það er erfiðara að spá um,“ segir Árni Páll og það má heyra á honum að hann vill lítið tjá sig um þetta mál.

Þegar blaðamaður ýtir á eftir frekari svari segist Árni Páll skynja í dag að Samfylkingin, eins og allir aðrir stjórnmálaflokkar, þurfi að svara ákalli samfélagsins um ný stjórnmál.

„Það munu skapast aðstæður þar sem fólk sér leiðtoga verða til sem endurspeglar viðhorf flokksins, líkt og Jóhanna gerði árið 2009,“ segir Árni Páll.

Nú tókst þú góðan rúnt um landið í janúar til að hitta flokksmenn. Einhver kynni að túlka það sem svo að þú sért að undirbúa formannsframboð?

„Ég hafði allt í einu meiri tíma eftir áramót en ég hafði gert ráð fyrir,“ segir Árni Páll og hlær.

„Ég hafði lengi stefnt að því að fara um landið og hitta fólk, gerði það reglulega sem ráðherra og var alltaf að horfa til þess að gera það núna í janúar. Fyrir utan það þá er þetta það sem mér finnst skemmtilegast við pólitíkina, þ.e. að fara um landið og hitta fólk. Maður á gera það sem manni finnst skemmtilegt.“

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
© BIG (VB MYND/BIG)