Utanríkismálanefnd Alþingis ræddi um viðbúnað stjórnvalda vegna dómsuppkvaðningar í Icesave-málinu hjá EFTA-dómstólnum á mánudag í næstu viku. Árni Páll Árnason, varaformaður nefndarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið í dag mikilvægt að stjórnvöld fái fljótt skýringar á lögfræðilegri stöðu Íslands eftir að dómurinn liggur fyrir. Búið er að kortleggja nokkrar sviðsmyndir eftir því hver niðurstaðan getur orðið.

„Það er ekki gefið að hægt verði að ráða á einfaldan hátt í niðurstöðu dómstólsins. Við gætum unnið málið og þá liggur það alveg ljóst fyrir. Hitt er snúnara ef einhvers konar áfellisdómur fellur yfir Íslandi. Þá er hægt að sjá fyrir sér mjög ólíka þýðingu eftir því hver efnisatriði dómsins verða,“ segir hann og bendir á að sjá megi fyrir sér afleiðingar, sumar léttvægar, aðrar þungbærari, ef dómurinn telji að Ísland hafi með einhverjum hætti brotið gegn skuldbindingum sínum.

„Ég held að þróun mála í Evrópu síðustu árin geri ekkert annað en að staðfesta enn frekar hversu skynsamlegar, hóflegar og eðlilegar þær aðgerðir voru sem Ísland greip til við þessar fordæmalausu aðstæður,“ segir hann.