„Allt okkar fjármálakerfi er í fullkomnu uppnámi. Það er ekki lengur hægt að segja hvað eru öruggar eignir,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hann var með erindi á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í síðustu viku um efnahagsáætlun stjórnvalda og mikilvægi þess að hafa hér áreiðanlega hagstjórn.

Í erindinu kom Árni Páll inn á skuldakreppuna á evrusvæðinu. Hann sagði stöðuna afar erfiða enda sjái ekki fyrir endann á skuldakreppunni. Í raun megi segja að heimsmyndin sé í algjöru uppnámi þar sem ekki sé lengur hægt að styðjast við fyrirmyndir, að hans mati.

„Við erum hér að takast á við endurskipulagningu þegar óvenjulítillar leiðsagnar er að fá. Við höfum getað tekið upp gamlar skýrslur og farið eftir þeim. En nú er allt í uppnámi, þar á meðal forsendur fjármálamarkaða," sagði ráðherra og benti sem dæmi á að þar til nýverið hafi ríkisskuldabréf talist eina áhættulausa eignin. Því sé ekki að skipta nú. „Það er ekki lengur hægt að segja hvað séu öruggar eignir,“ sagði Árni Páll.