Eftir kosningu til formanns á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar, þar sem Árni Páll Árnason vann með eins atkvæðis meirihluta, segist hann hafa hugsað með sér hvort hann gæti ekki með einhverju móti fengið skýrara umboð.

Í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í dag sagði hann að hann hafi mest langað til að finna einhverja leið til þess að kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna.

„Ég var kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu og vann þar með miklum meirihluta og ég vildi bara fá að leggja verk mín og hugmyndir mínar í dóm allra flokksmanna, alveg eins og ég var kjörinn. Það er bara því miður ekki hægt eins og lögin eru. Við búum við frekar stífa umgjörð sem er kannski eitt af því sem við þurfum að taka til endurskoðunar ef við viljum vera meiri fjöldahreyfing. Formaðurinn er kjörinn til tveggja ára og það er ekki hægt að halda landsfundi nema annað hvert ár. Þessar grundvallarreglur verður maður að virða þannig að maður gat ekkert óskað eftir allsherjaratkvæðagreiðslu til þess að fá skýrara umboð. Það verður að bíða formannskjörs sem getur ekki farið fram fyrr en eftir tvö ár.“