Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra, mun aftur sækjast eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Árna Páls en hann er oddviti Samfylkingarinnar í kjördæminu í dag og fyrsti þingmaður kjördæmisins.

„Kæru vinir og stuðningsmenn. Vil staðfesta það sem þegar hefur komið fram að ég gef aftur kost á mér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi,“ segir Árni Páll á síðu sinni.

„Samfylkingin er stærsti flokkur landsins og á að hafa sjálfstraust til að vera kjölfesta stjórnmálanna á óvissutímum og halda fram í senn félagslegu réttlæti og frjálslyndi. Við unnum sigur í kjördæminu í síðustu kosningum undir þessum merkjum og ég hlakka til næstu kosninga, því ég er sannfærður um að þessi sjónarmið eigi enn mest fylgi meðal þjóðarinnar.“

Til upprifjunar þá fékk Samfylkingin 32,2% fylgi í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2009.

Búast má við því að Katrín Júlíusdóttir, sem var í 2. sæti listans í síðustu kosningum og er verðandi fjármálaráðherra, gefi einnig kost á sér í 1. sæti listans.