Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra um hvernig boðaðar niðurfellingar ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru á laugardag munu skiptast á milli ólíkra hópa. Spurt er sérstaklega um hvernig niðurfellingarnar dreifast eftir eignarhlut í íbúðarhúsnæði, eftir tekjum, greiðslubyrði og fjölskylduaðstæðum.

Árni Páll telur mörgum spurningum enn ósvarað í tengslum við skuldaniðurfellinguna og vill fá skýr svör við nokkrum ítarlegum spurningum sem hann hefur sett fram.

Á meðal þess sem Árni Páll spyr um er hversu stór hluti fyrirhugaðrar niðurfærslu lendir hjá framteljendum þar sem skuldahlutfall (hlutfall húsnæðisskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis) miðað við framtal er undir 100% og því hversu stór hluti lendir hjá framteljendum með undir 80% sem er algengt lánshlutfall nú. Árni Páll vill sömuleiðis fá að vita hversu stór hluti niðurfærslunnar lendir hjá þeim framteljendum sem hafa tekjur yfir meðallagi og í hvaða tekjuflokka fólks er um að ræða.

Fyrirspurn Árna Páls