Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, segir mikilvægt að byggja fleiri íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að laga stöðuna á leigumarkaðnum. Hann var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem hann m.a. fagnaði endurskoðun á nýrri byggingarreglugerð. Reglugerðin var harðlega gagnrýnd í fyrra enda lagði hún ýmsar kvaðir á sem ekki voru til staðar áður auk þess sem óttast var að hún myndi hækka byggingakostnað um allt að 20%. Þá voru ákveðnar stærðartakmarkanir sem komu í veg fyrir byggingu lítilla og ódýrra íbúða, s.s. fyrir námsmenn og á leigumarkaðinn.

Vinnuhópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðherra vinnur nú að endurskoðun reglugerðarinnar.

„Okkur var sagt að þetta [innskot: reglugerðin] fylgdi alþjóðlegum stöðlum og að byggingareglugerðin væri nauðsynleg. En þessu verður að breyta,“ sagði hann og benti á að jafnframt hafi húsaleigubætur verið hækkaðar til að laga stöðuna á húsaleigumarkaðnum ásamt öðru.

Þá sagði Árni Páll nauðsynlegt að auka byggingamagn á höfuðborgarsvæðinu og nefndi lóðina í kringum Ríkisútvarpið sem dæmi.

„Það er stór loð í kringum þetta hús,“ sagði hann.