Árni Páll Árnason, alþingismaður hefur ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og sækist eftir að leiða listann í komandi kosningum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna Pál.

„Eftir samfélagshrun bíða brýn verkefni úrlausnar. Í endurreisn samfélagsins skiptir öllu að almannahagur verði tekinn fram fyrir sérhagsmuni og vildarvinavæðingu. Jafnaðarmenn þurfa því að hafa forystu um endurreisnina,“ segir Árni Páll í tilkynningunni.

„Á næstu misserum þarf áfram að taka á brýnum vanda heimila með raunsæjum hætti og tryggja atvinnuþátttöku fólks sem kostur er á tímum vaxandi atvinnuleysis. Sköpun nýrra, sjálfbærra starfa fyrir bæði kyn er lykilatriði og markvisst þarf að vinna gegn félagslegri einangrun atvinnulausra. Jafnframt þarf að endurmeta opinber útgjöld og leiðir til tekjuöflunar, til að tryggja í senn heilbrigt atvinnulíf og öfluga velferðarþjónustu.“

Þá segir Árni Páll að á næstu misserum þurfi að ná efnahagslegum stöðugleika og tryggja forsendur fyrir sjálfbærum hagvexti.

„Aðild að Evrópusambandinu er lykilatriði á þeirri vegferð,“ segir Árni Páll.

„Kollsteypustjórnmál fyrri tíma þurfa að heyra sögunni til. Jafnframt þarf lýðræðislega endurnýjun og gagnsæi og hreinskiptni í stjórnarháttum.“

Árni Páll segist bjóða sig fram til þessara starfa og hlakka til að takast á við þau undir merkjum jafnaðarstefnunnar.

Þá má geta þess að í byrjun febrúar lýsti Árni Páll yfir framboði sínu til varaformennsku í Samfylkingunni.