Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka, hefur selt Tíu-ellefu ehf.  til félags í eigu Árna Péturs Jónssonar.

Í fréttatilkynningu frá Arion segir að í tilkynningu sem Arion banki hafi sent frá sér þann 28. apríl síðastliðinn og í auglýsingum sem birtar hafi verið í kjölfarið, var Rekstrarfélag Tíu-ellefu auglýst til sölu. Í kjölfar kynningar á félaginu var kallað eftir tilboðum frá áhugasömum fjárfestum og á þeim grundvelli var ákveðið að ganga til viðræðna við fyrrgreindan aðila sem átti hagstæðasta tilboðið. Þeim viðræðum er nú lokið með undirritun samnings um kaup Árna Péturs Jónssonar á Rekstrarfélagi Tíu-ellefu. Gert er ráð fyrir að nýr eigandi taki við rekstri félagsins fyrir lok þessa mánaðar.