*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Fólk 13. ágúst 2019 09:35

Árni Pétur ráðinn forstjóri Skeljungs

Forstjóri og fyrrum eigandi Basko, sem rekur Tíu Ellefu og Iceland hefur verið ráðinn forstjóri olíufélagsins.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson hefur verið forstjóri Basko sem rekur m.a. verslanirnar sem reknar eru í bensínstöðvum Orkunnar sem reknar eru af Skeljungi sem hann tekur nú stjórn á.
Aðsend mynd

Stjórn Skeljungs hf. hefur ráðið Árna Pétur Jónsson, sem forstjóra félagsins, og mun ráðningin taka gildi í dag.  Árni Pétur lauk Cand Oecon frá Háskóla Íslands 1991.  Árni Pétur hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, stórra sem smárra.

Hann hefur unnið með fyrirtækjum sem eru í alþjóðaviðskiptum, s.s. Vodafone, Debenhams, Zara, Top Shop og Iceland. Þá var Árni forstjóri Teymis hf þegar það var skráð í Kauphöll Íslands auk þess sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum.

Hin síðari ár hefur Árni Pétur verið forstjóri Tíu Ellefu (10-11)/Iceland Verslun (Iceland) og Basko, en seldi hlut sinn 2016. Þess má geta að Basko rak 10-11 verslanirnar sem áður voru reknar í húsnæði Skeljungs en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var hætt við áætlaða sameiningu Basko og Skeljungs árið 2017. Á síðasta ári keyptu Samkaup hluta hluta af verslunum Tíu Ellefu, en verslanirnar í bensínstöðvunum heita nú Kvikk On The Go.

Árni Pétur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður.  Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt.  Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum. 

Jens Meinhard Rasmussen, stjórnarformaður segir: „Með ráðningu á Árna Pétri sem forstjóra Skeljungs þá erum við að fá inn í fyrirtækið reynslu og þekkingu sem nýtist okkur til að sækja fram á við og móta fyrirtækið til framtíðar.“

Árni Pétur Jónsson, nýr forstjóri segist hlakka til að takast á við spennandi verkefni. „Ég þekki Skeljung vel og veit að þar starfar öflugt og reynslumikið fólk,“ segir árni Pétur. „Starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum byggir á traustum grunni sem við ætlum að halda áfram að þróa.  Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hefur og mun taka breytingum á næstu árum, sem gerir starfið mjög áhugavert.“

Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum.

Auk þess selur félagið áburð og og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum og er starfsemin rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, OrkanX og Magn.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni Skeljungs: