„Það er með miklu stolti sem ég segi skilið við Teymi og Vodafone. Félögin eru í góðum rekstri og þeim hefur gengið vel að sigla út úr efnahagsóveðrinu sem hefur skaðað öll íslensk fyrirtæki,“ segir Árni Pétur Jónsson, sem hættur er sem forstjóri Teymis.

„Teymi og dótturfélög þess eru mönnuð framúrskarandi starfsfólki, þau veita frábæra þjónustu hvert á sínu sviði og þeim mun vegna vel í harðri samkeppni. Ég óska félögunum og starfsmönnum þeirra alls hins besta í framtíðinni.“

Árni Pétur segir að þegar aðstæður í efnahagslífinu versnuðu hratt í kjölfar bankahruns varð skuldastaða Teymis mjög erfið.

„Í upphafi ársins náðist samkomulag við Nýja Landsbankann, stærsta kröfuhafa félagsins, um að undirritaður leiddi nauðasamningsferli félagsins og færi þess á leit við kröfuhafana að hluta skuldanna yrði breytt í hlutafé. Þannig eignuðust kröfuhafar Teymi og dótturfélög þess að fullu og Teymi varð fyrst íslenskra fyrirtækja til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu í kjölfar bankahrunsins.

Nauðasamningsferlinu lauk á liðnu sumri og nýir eigendur tóku formlega við Teymi á aðalfundi félagsins í september. Í kjölfarið hófust umræður um framtíð Teymis og skipulag sem m.a. leiddu til samkomulags um að undirritaður léti af störfum sem forstjóri Teymis og Vodafone. Ég hef því látið af störfum hjá umræddum félögum,“ segir Árni Pétur í yfirlýsingu.