Árni Samúelsson eigandi og stjórnarformaður Sam-Félagsins sem er móðurfélag Sambíóanna og Samfilm hefur verið skipaður í stjórn nýs félags sem til verður eftir samruna Cineworld Group og Cinema City Intl.

Samruninn mun taka gildi í byrjun mars 2014 og er samruninn virði 96,3 milljarða íslenskra króna (825 million USD). Cinema City sem skráð er í kauphöll Varsjá í Póllandi er leiðandi félag á kvikmyndahúsamarkaðnum í Evrópu og rekur kvikmyndahús í Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Slóvakíu og Ísrael. Cineworld Group er skráð í kauphöll London, Cineworld Group rekur kvikmyndahús undir nöfnunum Cineworld og Picturehouse og er markaðsleiðandi kvikmyndahúsakeðja í Bretlandi, Írlandi og rekur einnig kvikmyndahús í Skotlandi.

Með samrunanum verður til önnur stærsta kvikmyndahúsakeðja í Evrópu með 1.852 sýningarsali í 10 löndum og er því í fyrsta eða öðru sæti á hverju markaðsvæði í fjölda sýningarsala, en um 250 milljón manns búa á markaðssvæðum félagsins.

Árni Samúelsson er eigandi kvikmyndahúsakeðjunar Sambíó og kvikmyndadreifingar fyrirtækisins Samfilm. Árni hefur áður setið í stjórn Stöð 3, Fínum Miðli, Íslenska útvarspfélagsins ( sem varð síðar að 365 miðlum)  og öðrum fjölmiðlatengdum fyrirtækjum.