Það vakti athygli í nóvember þegar ríkisstjórnin hélt ríkisstjórnarfund í Reykjanesbæ og tilkynnti um aðgerðaáætlun í ellefu liðum sem unnin yrði í samráði við bæjaryfirvöld á Suðurnesjum. Þar voru aðilar sem eru á sitt hvorum pólnum í pólitík að samþykkja að vinna saman.

Aðspurður um hvernig viðbrögð hann hafi fengið við þessari óvæntu samvinnu segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, þau hafa almennt verið ágæt. „Þetta er ekkert nýtt fyrir mér. Ég er auðvitað sjálfstæðismaður og mæti oft hörðum andstæðingum. En þegar tekst að brjóta niður ímyndaða múra, líkt og okkur tókst þarna, og segja skilið við haukana í flokkunum, þessa hörðu kappa sem vilja bara sjá blóð renna, þá er margt hægt. Ef maður ýtir þeim til hliðar þá verða ágreiningsmálin hreinni og hægt verður að tala um þau eins og menn.

Maður verður auðvitað að reyna að skilja sjónarmið mótherjans. Það er ágreiningur sem verður oft ekkert leystur. En ég tel svo mörg verkefni möguleg í stöðunni að við hljótum að geta sameinast um einhver þeirra.“

Hann segir samráðið við ríkisstjórnina hafa gengið vel. „Ég var gagnrýndur af einhverjum fyrir að taka þátt í þessu, en ég ákvað að gera það vegna þess að mér fannst einlægur vilji hjá ríkisstjórninni til að vinna með okkur. Ég hef ekki fundið annað frá fjármálaráðherra og forsætisráðherra en að svo sé. Auðvitað hafa menn skiptar skoðanir í pólitík varðandi leiðir í atvinnumálum og við verðum að horfast í augu við það.

Það hefur margt áunnist nú þegar. Sérstaklega á félagslega sviðinu þar sem verið er að skoða fjármál heimilanna og ákvörðun hefur þegar verið tekin um að hingað komi aðilar [innsk. blaðam. Umboðsmaður skuldara] sem veiti þennan stuðning. Stuðningur við menntun á svæðinu skiptir líka verulegu máli.“

„Í þessum stærstu atvinnuverkefnum, sem unnið er að, sé ég fáar hindranir í dag frá hendi ríkisstjórnarinnar. Álversverkefnið snýst núna um samninga orkufyrirtækjanna við Norðurál. Það eru samningsviðræður í gangi, bæði hjá HS Orku og Orkuveitunni. Þeir sem standa að kísilverinu eru í samningsviðræðum við bæði HS Orku og Landsvirkjun. Varðandi gagnaverið standa menn enn með óljós svör í höndunum varðandi hvernig verði tekið á ýmsum skattalegum málum. Við höfum rætt það við ríkisstjórnina og við gerum okkur grein fyrir að það er flókið mál. Við höfum óskað eftir því hvort menn geti ekki leitað eftir samanburðarhæfum dæmum frá Evrópu svo menn þurfi ekki að bíða mikið lengur. Staða þess verkefnis er þó óljós, en fyrirtækin sem standa að því hafa verið að vænta góðra frétta um áramót.

Breytingar á sjúkrahúsinu eru í fullri vinnslu og útboð í gangi sem eiga að skila því að húsnæðið sé tilbúið í júní á næsta ári. Þá á að byrja að flytja inn sjúklinga. Það er því margt að gerast. Staða ECA-verkefnisins er hins vegar mjög óljós í dag. Annars vegar vantar skýr svör frá flugmálastjórn og hins vegar eru svör frá ráðherra samgöngumála óskýr. En þar erum við aftur komin í harða pólitík.“

_____________________________

Ítarlegt viðtal við Árna Sigfússon er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .