Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær eru miklar vangaveltur uppi um mögulega formanns- og varaformannsframboð fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem haldinn verður í lok mars en Geir H. Haarde, formaður flokksins hefur þegar lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og fyrrverandi borgarstjóri stefni nú að því að bjóða sig fram til varaformanns flokksins og útiloki ekki formannsframboð.

Þannig hefur Árni þegar látið kanna bakland sitt í flokknum og vinnur nú að undirbúningi framboðsins.

Rétt er þó að taka fram að stefnt er að því að prófkjör fari fram í öllum kjördæmum fyrir landsfund og mun hugur Árna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, vera til þess að sækjast eftir forystuhlutverki á Suðurlandi en þar situr Árni Mathiesen, starfandi fjármálaráðherra í forystusæti fyrir.

Þeir aðilar sem helst hafa verið nefndir til sögunnar í formannsembættið hingað til eru Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Þór Júlíusson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi varaformaður.

Minna hefur farið fyrir mögulegum varaformannsefnum en heimildir Viðskiptablaðsins herma að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Ólöf Nordal, alþingismaður, hafi töluvert verið nefndar eins og greint var frá í gær.

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að Þorgerður Katrín íhugi alla möguleika, það er að sækjast eftir formannsembættinu, sækjast eftir að sitja áfram sem varaformaður eða draga sig út úr forystu flokksins.