Umboðsmaður Alþingis segir í nýju áliti að Árni Sigfússon, formaður ráðgjafanefndar Orkusjóðs, hafi verið vanhæfur þegar nefndin gerði tillögu um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands fengi styrk úr sjóðnum. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, er bróðir Árna.

Á vefsíðu umboðsmanns segir um málið:

„Þar sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði sótt um styrk úr sjóðnum og fyrirsvarsmaður hennar væri bróðir formanns ráðgjafarnefndarinnar væri formaðurinn tengdur fyrirsvarsmanni aðila málsins í skilningi reglnanna og nefndarmaður í þeirri stöðu teldist vanhæfur. Umboðsmaður féllst ekki á þær skýringar ráðuneytisins að þáttur nefndarformannsins hefði verið lítilfjörlegur í merkingu laganna og ylli þar með ekki vanhæfi eða félli undir undantekningar frá hæfisreglunum að öðru leyti. Niðurstaða umboðsmanns var því sú að formaður ráðgjafarnefndar Orkusjóðs hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins og að hann hefði ekki mátt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Þar sem fyrir lá að hann tók þátt í undirbúningi tillagnanna og sat fund þar sem þær voru afgreiddar taldi umboðsmaður að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög.“

Nýsköpunarfyrirtækið Valorka skaut málinu til umboðsmanns, en í samtali við Fréttablaðið í október í fyrra sagði framkvæmdastjóri Valorku, Valdimar Össurarson, að málið stangaðist á við stjórnsýslulög og að hann hefði kært úthlutunina til ráðuneytis og krafist endurupptöku.