Árni Snorrason hefur verið skipaður forstjóri nýrrar stofnunar sem ber heitið Veðurstofa Íslands til næstu fimm ára.

Ný stofnun verður til við sameiningu Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga Orkustofnunar og tekur til starfa formlega 1. janúar nk.

Árni lauk doktorsnámi í vatnaverkfræði við Háskóla Illinois í Bandaríkjunum árið 1983 og hefur verið gestafræðimaður við Háskóla New Hampshire og Háskóla Arizona. Hann hefur starfað sem forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar frá árinu 1987.

Þetta kemur fram í frétt umhverfisráðuneytisins.

11 umsækjendur

Alls voru ellefu umsækjendur um starfið, en þeir voru:

Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Reiknistofu í veðurfræði ehf.

Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Árni Snorrason, forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar.

Sólveig Þorvaldsdóttir, ráðgjafarverkfræðingur hjá Rainrace ehf.

Steinunn S. Jakobsdóttir, sviðsstjóri eðlisfræðisviðs Veðurstofu Íslands.

Sigrún Karlsdóttir, deildarstjóri spádeildar Veðurstofu Íslands.

Þóranna Pálsdóttir, forstöðumaður veðursviðs Veðurstofu Íslands.

Conny Larsson, dósent í veðurfræði við jarðvísindastofnun Uppsalaháskóla.

Sverrir Jenssen, sjálfstætt starfandi við rannsóknir í veðurfræði og stærðfræði.

Ísak Örn Sigurðsson, sjálfstætt starfandi.

Hulda Birna Baldursdóttir, markaðsstjóri.