Einstakir kröfuhafa sem kunna, í gegnum Glitni, að eignast Íslandsbanka að hluta til eða öllu leyti munu ekki hafa bein áhrif á daglegan rekstur, stjórnun eða umsýslu eigna bankans, frekar en almennt gerist í almenningshlutafélögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna Tómassyni, formanni Skilanefndar Glitnis sem hann sendi frá sér í dag vegna umfjöllunar fjölmiðla um aðkomu erlendra kröfuhafa að Íslandsbanka en eins  og tilkynnt var í gær eiga kröfuhafa í gegnum Glitni möguleika á því að eignast Íslandsbanka að hluta eða öllu leyti samkvæmt samningi stjórnvalda og Glitnis

„Kröfuhafar Glitnis eru dreifður hópur, þar á meðal bankar og verðbréfasjóðir, sem hefur það að markmiði að fá sem mestar endurheimtur af skuldabréfum sínum í Glitni banka,“ segir Árni.

„Þessir aðilar telja verðmæti fólgin í eignarhaldi á Íslandsbanka og er gert ráð fyrir að þeir muni, þegar fram líða stundir, skipa óháða sérfræðinga í bankaviðskiptum í stjórn bankans.“

Árni segir að þetta verði gert í nánu samráði við skilanefnd Glitnis, Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld. Þá meti Fjármálaeftirlitið hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum sem og hæfi einstaklinga til að taka sæti í stjórnum banka og fjármálafyrirtækja.