„Eina sem vakir fyrir okkur er að hámarka það verð sem við fáum," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, spurður út í þá kröfu skilanefndarinnar og annarra stórra íslenskra kröfuhafa að stjórnendur Existu víki.

Krafan var sett formlega fram í lok maímánaðar en stjórnendur Existu hafa hins vegar ekki viljað verða við henni. „Þá eigum við þann kost," segir Árni „að gjaldfella þær kröfur sem þeir geta ekki borgað." Existumenn geti á móti reynt að semja um skuldirnar.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ágreiningur um hve háar þær eru, en Árni vill ekki nefna neina tölu.

Skuldirnar gagnvart Glitni felast aðallega í afleiðusamningum.

Árni segir að náist ekki sátt um málið gæti það endað fyrir dómstólum.