Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir lánadrottna bankans fyrst og fremst hafa haft áhuga á frekari upplýsingum. „Þess vegna höfum við sett ferli í gang til þess að mæta þeim óskum lánadrottna,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið, spurður um viðbrögð lánadrottna við þjóðnýtingu bankans fyrir skömmu.

Verkefni skilanefndar er að verja af besta kosti eignir Glitnis, hámarka verð þeirra og lágmarka tjón, að sögn Árna. Einnig að setja upp ferli til þess að komast til móts við lánadrottna og veita þeim upplýsingar. Ásamt því að skipuleggja vinnu Skilanefndar gagnvart lánadrottnum. Skilanefnd gefur sér hálfan mánuð til þess, að sögn Árna.

Nýi Glitnir var stofnaður í kjölfar þjóðnýtingarinnar og tók yfir innlendar eignir Glitnis.

„Allt sem snýr í grunninn að innlendri starfsemi færist yfir. Það er megin línan,“ segir Árni. „Það var upphaflega markmiðið; að forða því að innlenda starfsemin félli saman.“